Við hjá Ásbirni Ólafssyni ehf erum sífellt að leita leiða til þess að auka þjónustu við viðskiptavini okkar sem og að aðlaga vöruvalið. Nú höfum við tekið í sölu vörur frá eggjabúinu Nesbúi!

Um er að ræða 1. flokks heil egg, soðin egg, bæði eggjahvítur og eggjarauður ásamt eggjablöndu úr heilum eggjum og eggjakökumixi.

Ekki hika við að hafa samband við söludeild okkar í síma 414-1150 eða á sala@asbjorn.is fyrir pantanir eða fyrirspurnir.

Nokkrir fróðleiksmolar frá Nesbú.is

Sjá hvað eggið er gamalt

Egg eru best nýorpin en hvernig vitum við hversu gömul eggin eru? Ein besta leiðin til að komast að aldri eggs án þess að brjóta það er að setja eggið í skál með köldu vatni.
Fylltu skál af vatni og settu eggið í skálina, eggið má ekki standa upp úr vatninu. Ef eggið liggur flatt á botninum þá er það glænýtt. Ekki er gott að sjóða glæný egg þar sem erfitt er að ná skurninni af. Egg sem liggja á botninum en annar endinn stendur upp eru upplögð fyrir suðu, þessi egg eru 2-3 vikna gömul. Egg sem fljóta eru orðin gömul og geta verið farin að úldna. Við mælum með að þeim sé hent.

Sjá hvort egg er hrátt eða soðið

Það er auðvelt að sjá hvort egg sé hrátt eða soðið.
Leggið eggið á borð eða sléttan flöt. Snúið egginu kröftuglega í hring á borðinu, hreyfingin við að snúa því ætti að vera svipuð og þið væruð að smella fingrum.
Leggið 1 putta á eggið til að stöðva snúninginn og fjarlægið hann um leið og eggið stoppar.
Ef eggið er soðið þá stoppar það og hreyfist ekki meira.
Ef eggið er hrátt þá heldur það áfram að hreyfast.
Ástæðan fyrir því er að rauðan og hvítan í egginu eru ennþá á hreyfingu og hreyfa eggið.
Einnig er hægt að fylgjast með hvernig eggið snýst. Ef það snýst í hring og er stöðugt þá er það líklega soðið. Ef eggið er óstöðugt og vaggar mikið þá er líklegt að það sé hrátt. Þungamiðjan í hráa egginu breytist þar sem rauðan og hvítan eru á hreyfingu sem veldur því að það vaggar.